Jóladagatal – Leiðbeiningar

Jóladagatal Hurðaskellis og Skjóðu verður í gangi á hverjum degi í desember alveg fram að jólum. Hér á síðunni getur þú fundið alla þættina og auk þess eldri jóladagatöl en fyrsta jóladagatalið er frá árinu 2014.
Góða skemmtun.

Jóladagatal Hurðaskellis og Skjóðu – 2017

1. desember 2017 – Jóladagatal

Í dag er fyrsti desember og Hurðaskellir og Skjóða hjóla af stað með fjórðu seríuna af jóladagatalinu sínu. Eins og síðastliðin ár ætla þau að föndra með okkur á hverjum degi fram að jólum og þannig stytta okkur biðina eftir jólahátíðinni. Í dag, eins og reynar alltaf þann 1. desember, ætla Hurðaskellir og Skjóða að föndra jóladagatal.
Smelltu hér til að sækja jólasveininn og búa til þitt eigið dagatal. 

2. desember 2017 – Perlað jólaskraut

Í dag, annan desember, ætla þau Hurðaskellir og Skjóða að föndra fallegt jólaskraut úr perlum. Þau byrja á að raða perlunum saman í falleg form, strauja þau til að þau festist saman en einmitt þegar þú heldur að jólaskrautið þeirra sé tilbúið bæta þau við það með því að sauma fallegt munstur í formin. Trúiði mér ekki? Sjáið bara með einum augum listaverkin sem þau skapa.
Á myndunum má sjá saumauppskriftir.

hreindýr jólatré stjarna

3. desember 2017 – Jólaspil

Í þættinum í dag keppa Hurðaskellir og Skjóða í því stórskemmtilega spili – Hver verður fyrstur að teikna snjókarl? Reglurnar eru einfaldar, ef þú færð :
einn     áttu að teikna   hatt
tvo       áttu að teikna   litla kúlu
þrjá     áttu að teikna   stóra kúlu
fjóra    áttu að teikna   andlit
fimm   áttu að teikna   tölur
sex       áttu að teikna   hendur
Góða skemmtun!

4. desember 2017 – Jólatré úr dagblöðum

Í dag ætlar Skjóða að kenna okkur að föndra fallegt jólatré úr gömlum dagblöðum. Það er nefnilega oft þannig að við getum notað ruslið okkar til að búa til eitthvað fallegt. Sjáið bara sjálf.

5. desember 2017 – Íspinnastjarna

Tíminn virðist bara ekki líða í desember, enda er svo margt að hlakka til! Við færumst þó alltaf einum degi nær jólum og í dag er ekki nema vika þangað til við kíkjum í skóinn og sjáum hvað Stekkjarstaur hefur fært okkur. En þangað til þá bara föndrum við og í dag ætlum við að föndra úr íspinnaspítum.

6. desember 2017

Skjóða er alltaf svöng, hún elskar að borða. Þáttur dagsins er því skemmtilegasti þáttur þessa árs að hennar mati (namm, matur) því í dag ætlar Hurðaskellir að baka fyrir hana vöfflur.

7. desember 2017

Hurðaskellir og Skjóða voru að pakka inn jólagjöfinni fyrir Stúf bróður sinn. Þegar þau voru búin áttu þau nokkra búta af afklipptum jólapappír sem nýtist þeim varla meira. Í staðinn fyrir að henda honum í ruslið ákváðu þau að föndra úr honum.

8. desember 2017

Það styttist í jólin og í dag ætla þau Hurðaskellir og Skjóða að búa til föndur til að hengja á jólatréð. Þetta eru kerti, gullfalleg jólakerti sem skreyta jólatréð svo fallega. Það er eins gott að Kertasníkir komist ekki í þessi, hann verður sko fljótur að nappa þeim.

Jóladagatal Hurðaskellis og Skjóðu – 2016

1. desember 2016

Í dag er fyrsti desember og Hurðaskellir ætlar að fá sér fyrsta molann í súkkulaðidagatalinu sínu. Hann grípur þá í tómt því einhver hefur klárað alla molana úr dagatalinu hans. Nú á hann ekkert dagatal. En Hurðaskellir er heppinn að eiga góða systur því Skjóða systir hans hjálpar honum að búa til nýtt dagatal.

2. desember 2016

Í dag, annan desember, kennir Hurðaskellir okkur að búa til jólamat handa smáfuglunum. Hann blandar saman tólg við fuglafóður og setur blönduna í piparkökumót. Þegar tólgin harðnar heldur hún saman fuglafóðrinu og þá verða til flottar fígúrur úr matnum. Þetta er síðan hægt að hengja upp í tré.
Það er gaman að segja frá því að miklu fleira er hægt að nota en bara tilbúið fuglafóður því fuglar borða næstum alla matarafganga sem við skiljum eftir. Er þá bara um að gera að skera þá smátt, skella út í bráðnaða tólgina og kæla síðan til að festa saman.

3. desember 2016

Í dag, þriðja desember, heimsækir Skjóða Hurðaskelli bróður sinn í IKEA en þar er einhver þeirra bræðra allar helgar fram að jólum í myndatöku. Þegar Hurðaskellir hefur lokið sér af í IKEA fara systkinin síðan heim og föndra snjókorn. Þið þurfið ekki að nota neitt nema hvítt blað og skæri í þetta föndur. Einfalt og þægilegt.

4. desember 2016

Það er kominn 4. desember og í dag ætlar Hurðaskellir að kenna okkur að föndra okkar eigin gjafapoka úr venjulegum gjafapappír. Það getur oft verið þægilegt að notast við gjafapoka þegar gjafir eru skrýtnar í laginu. Til dæmis þegar pakka á inn fótbolta, lunda eða súlu. Víglundur fær þann heiður að máta gjafapokann en það er ekki endilega víst að hann verði geymdur í honum alveg til jóla.

5. desember 2016

Það er fimmti desember í dag og Skjóða dregur skemmtilegan miða upp úr dagatalskrukkunni sinni. Hún á að borða ávexti. Skjóða fær Hurðaskelli bróður sinn með sér í leikinn og saman búa þau til flotta diska af sannkölluðum jólaávöxtum. Það getur verið svo ótrúlega gaman að leika sér með matinn og ennþá girnilegra að gæða sér á kræsingum af vel skreyttum diski.

6. desember 2016

Við færumst nær jólunum og í dag, þann sjötta desember, ætla þau Hurðaskellir og Skjóða að föndra jólaseríu. Þessi er ekki með rafmagnsljósum heldur er hún búin til úr pappír. Fallegt skraut sem fjölskyldan getur föndrað saman.

7. desember 2016

Það er gaman að skreyta umhverfið sitt fyrir jólahátíðina og í dag ætla þau Hurðaskellir og Skjóða að búa til hurðakrans. Kransinn er síðan hægt að hengja á útidyrnar hjá sér og gleðja þannig alla þá sem eiga leið framhjá heimilinu þínu. Afskaplega einfalt og þægilegt föndur sem gaman er að dunda sér við.

8. desember 2016

Skjóða fær símtal og er beðin um að stjórna jólaballi í dag svo hún getur því miður ekki föndrað með okkur. En örvæntið ekki, Hurðaskellir er fullfær um að sjá um þáttinn einn. Í dag ætlar hann að kenna okkur að búa til litlar jólahúfur. Það eina sem þið þurfið að eiga er tóm klósettpappírsrúlla, smá garn og skæri.

9. desember 2016

Það er föstudagur og Hurðaskellir og Skjóða ætla að baka eitthvað gott fyrir helgina. En þar sem jólin eru á næsta leiti verða þau að venju þema þáttarins og fyrir valinu verður Nutellajólatré. Það er ekki nóg með að Nutellatréð sé afskaplega bragðgott, heldur er það líka fallegt á að líta og það er líka ótrúlega skemmtilegt að borða það. Maður fær sér bara eina grein í einu þangað til að jólatréð er alveg horfið. Uppskriftina má svo finna hér fyrir neðan. Njótið vel.

Nutellatré
450 gr. hveiti
1/3 bolli sykur
1 bolli volg mjólk
30 gr. smjör
2 tsk. þurrger
smá salt
2 eggjarauður

Þurrefnunum er blandað saman í skál. Þá er mjólk, eggjarauðum og smjöri blandað saman við. Deigið er síðan hnoðað af miklu afli í 10 mínútur eða þangað til það hættir að vera klístrað. Penslið þá skál með olíu, leggið degið í hana og penslið degið sjálft af ofan með olíu. Leggið matarfilmu yfir og leyfið deiginu að hefast í klukkutíma.

Eftir að deigið hefur hefast er því skipt í fjóra jafna hluta og hver þeirra er flattur út í þríhyrning. Hitið eina krukku af Nutellasúkkulaði til að það verði mjúkt og smyrjið því síðan á deigið ykkar. Byrjið á einum þríhyrningnum og teiknið á hann með súkkulaðinu, stærðarinnar jólatré. Þegar því er lokið leggið þið næsta þríhyrning ofan á þann fyrsta og setjið líka súkkulaði á hann. Þá er þriðja þríhyrningnum komið fyrir ofan á þeim fyrri og þriðja og síðasta lagið af súkkulaði er borið á. Loks kemur síðasti þríhyrningurinn ofan á alla hina.

Nú skerið þið greinar á Nutellatréð (sjá myndband) og snúið upp á þær. Áður en tréð fer síðan inn í ofninn er það penslað með 2 eggjahvítum og smá mjólk sem þið blandið saman í litla skál. Nú skal leggja rakt viskustykki yfir deigið og leyfa því að hefast í 40 mínútur í viðbót áður en það er sett inn í ofn. Tréð er síðan bakað í 15 mínútur við 180 gráður eða þangað til það verður gullinbrúnt.

Takið tréð úr ofninum og penslið það með sykurvatni. Stráið síðan nokkrum sesamfræum yfir og þá er það tilbúið.

10. desember 2016

Hurðaskellir er hálfgerður galdrakarl, hann kann að spá í bolla. Hann veit næstum því allt um Skjóðu og hrífur hana með sér í dularfulla heima. Hún ákveður að beita sínum spádómsgáfum líka og býr til gogg sem spáir því hvað þú færð í jólagjöf. Horfðu á þáttinn og þá getur þú líka séð inn í framtíðina. Blaðið sem þú þarft að prenta út sækir þú með því að smella HÉR.

11. desember 2016

Það er mikil spenna í Grýluhelli í dag enda fyrsti jólasveinninn á leiðinni til byggða í nótt. Hurðaskellir og Skjóða bregða þó ekki frá vananum og föndra með ykkur ellefta daginn í röð. Í dag kennir hún Skjóða okkur að sauma tuskudýr, sem er reyndar eins gott því það er ekki hægt að skilja orð af því sem Hurðaskellir segir. Eða skiljið þið þetta bullmál? Já og eitt enn, ekki gleyma að setja skóinn út í glugga í kvöld því hann Stekkjastaur er á leið í bæinn.

12. desember 2016

Hefur þið ekki alltaf dreymt um að búa til jólaskraut sem er með mynd af þér? Þetta datt okkur í hug og þess vegna hafa Hurðaskellir og Skjóða ákveðið að kenna ykkur einfalda leið til að færa myndir yfir á tréplatta. Þetta hljómar eins og það sé of gott til að vera satt en þetta virkar í raun og veru. Horfið á myndbandið og þið verðið sjálf fær um að færa myndir til með þessum hætti.

13. desember 2016

Það er fátt skemmtilegra en að fá fallega jólakveðju á aðventunni. Í dag ætla Hurðaskellir og Skjóða að kenna ykkur að senda rafræna jólakveðju til vina og fjölskyldu sem eru kannski langt í burtu og þið náið ekki að hitta fyrir jólin. Eða þau ætla að reyna að kenna ykkur það, þeim gengur ekkert allt of vel sjálfum.

14. desember 2016

Það eru bara 10 dagar til jóla og eflaust einhverjir byrjaðir að pakka inn jólagjöfunum. Í dag ætla þau Hurðaskellir og Skjóða að kenna okkur að búa til fallega merkimiða til að setja á pakkana.

15. desember 2016

Bólu, systur þeirra Hurðaskellis og Skjóðu hefur verið boðið í partý. Partý þar sem allir í veislunni eiga að vera klæddir í ljóta jólapeysu. Aumingja Bóla á ekkert til að fara í svo Hurðaskellir og Skjóða ákveða að föndra bara fyrir hana alveg ótrúlega ljóta og hallærislega jólapeysu. Hvernig ætli það gangi?

16. desember 2016

Það er hægt að föndra úr nánast hverju sem er en það er alveg ótrúlegt að þessi flotta jólastjarna sem Hurðaskellir og Skjóða ætla að föndra í dag, sé búin til úr klóssettpappírshólkum. Núna má sko engu henda því meira að segja hólkarnir undan klósettrúllunum eru orðnir gull í föndurheiminum. Sjón er sögu ríkari, kíktu á þátt dagsins.

17. desember 2016

Það er bara vika til jóla og í dag ætla þau Hurðaskellir og Skjóða að föndra jólatré úr íspinnaspítum. Skjóða tekur að sér að háma í sig ísinn svo hægt sé að nota spíturnar. Við mælum alls ekki með því að borða svona mikinn ís í einu en það getur verið gaman að safna saman íspinnaspítum því þær er hægt að nota við alls konar föndur.

18. desember 2016

Hurðaskellir er alveg dauðþreyttur enda er hann búinn að ferðast út um allt land í nótt til að lauma gjöfum í litla skó. Hann er því ennþá sofandi þegar Skjóða ætlar að byrja þáttinn þeirra svo hún ákveður að koma bróður sínum á óvart og elda fyrir hann morgunmat. Það eru jólapönnukökur í matinn í dag og Skjóða ætlar að kenna ykkur að baka þær. Þetta er nú aldeilis flott hjá henni.

19. desember 2016

Hverju haldið þið að Hurðaskellir og Skjóða hafi fundið upp á núna? Þau ætla að föndra jólastjörnu úr þvottaklemmum. Bara svona venjulegum þvottaklemmum sem maður notar til að hengja upp þvottinn á miðvikudagsmorgnum. Svona gerum við er við hengjum okkar þvott. Þetta er einfalt föndur sem flestir ættu að ráða við. Kíkið á þáttinn og skreytið húsið enn frekar fyrir jólin.

20. desember 2016

Það getur verið ótrúlega gaman að leika einhvern annan en maður er. Í dag ætla þau Hurðaskellir og Skjóða að kenna ykkur að gera snjókarla og jólasveinagrímur og þá getið þið leikið snjókarla og jólasveina. Grunnurinn að grímunum þeirra eru hvítir pappadiskar, á hann gera þau 2 göt, fyrir augun og síðan líma þau efni og bómul á diskana, auk þess sem þau teikna eða mála á þá. Einfalt og þægilegt en úr þessu verða þessar líka flottu grímur.

21. desember 2016

Hurðaskellir fær mikilvægt símtal og þarf nauðsynlega að hlaupa í annað verkefni. Sem betur fer er hún Skjóða tilbúin með skemmtilegt föndur sem hún kennir okkur á meðan hann er í burtu. Skjóða kann nefnilega að föndra þrívíddar jólakort. Hún býr til snjókarl úr sínu, ekkert smá flott.

22. desember 2016

Í dag eru bara 2 dagar til jóla svo spennan er orðin mikil í Grýluhelli. Gáttaþefur kom til byggða í nótt og af því tilefni ákveða þau Hurðaskellir og Skjóða að föndra einmitt hann. Þau notast við rafmagnskerti en loginn á kertinu fær að vera ógnarlangt nefið á jólasveininum þefnæma. Þau föndra að vísu líka snjókarl og Skjóða gefur honum flott eyrnaskjól.

23. desember 2016

Það er hefð á mörgum heimilum að skreyta ekki jólatréð fyrr en á Þorláksmessu, á afmælisdaginn hans Hurðaskellis. Systkinunum þykir því tilvalið að nýta daginn í dag til að búa til fallegar jólakúlur sem hægt er að hengja á jólatréð.

24. desember 2016

Loksins, loksins, loksins er hann runninn upp. Aðfangadagur jóla er einmitt í dag. Hurðaskellir og Skjóða eru að vonum ákaflega spennt og geta varla beðið eftir því að jólabjöllurnar hringi jólin inn. Þau hafa þó lofað henni Grýlumömmu að þau ætli að sjá um að leggja á jólaborðið og í dag ætla þau að sýna okkur hvernig þau fara að. Verður þitt jólaborð svona fallega skreytt líka?

Við þökkum fyrir skemmtilega samveru í desember og óskum þér og þínum gleðilegra jóla.

************************************************************************************

Jóladagatal Hurðaskellis og Skjóðu 2015

1. desember 2015

Hér er fyrsta myndbandið en í fyrsta þættinum föndra Hurðaskellir og Skjóða jóladagatal.

2. desember 2015

Annar þáttur jóladagatalsins kennir okkur að búa til skraut á ísskápinn okkar.

3. desember 2015

Í þriðja þættinum föndrum við mandarínukerti, kerti úr mandarínum.

4. desember 2015

Í jóladagatalinu í dag lærum við að hegða okkur í jólaboðinu, hegðun, atferli, framkoma.

5. desember 2015

Í dag ætla Hurðaskellir og Skjóða að perla, já eða baka perlur.

6. desember 2015

Í dag verða föndraðir kertastjakar úr áldósum.

7. desember 2015

Jóladagatal dagsins kennir okkur að baka bollakökur og skreyta þær.

8. desember 2015

Verið með og lærið að búa til jólaland.

9. desember 2015

Skreyttu jólaborðið og gerðu jólatré úr servíettunum.

10. desember 2015

Nú lærum við að gera merkimiða á jólapakkana okkar.

11. desember 2015

Núna föndra þau Hurðaskellir og Skjóða jólatré í þrívídd.

12. desember 2015

Búum til snjókarla úr gömlum sokkum.

13. desember 2015

Nú má sko bjóða til veislu því Hurðaskellir og Skjóða kenna okkur að gera grænmetissnjókarl og ostajólatré.

14. desember 2015

Þetta er jólaföndur sem eldri börnin geta föndrað og yngri börnin geta leikið sér með.

15. desember 2015

Hurðaskellir og Skjóða föndra fallega stjörnu sem hægt er að hengja út í glugga.

16. desember 2015

Það er ekki seinna vænna að skrifa jólakortin og í dag ætlum við að föndra jólakort í þrívídd.

17. desember 2015

Föndur dagsins er jólatré sem má setja kerti inn í.

18. desember 2015

Hurðaskellir er skelfilega svangur enda búinn að vera vakandi í alla nótt. Hann þurfti jú að setja í skóinn hjá öllum börnum landsins. Skjóða systir hans kemur honum á óvart og eldar handa honum jólapizzu.

19. desember 2015

Í dag lærum við að gera ávaxtapinna.

20. desember 2015

Í dag lærum við að búa til kertastjaka úr krukkum. Sultukrukkum, sósukrukkum eða bara einhvern veginn krukkum.

21. desember 2015

Skjóða elskar að fá sér kakó í desember og í dag ætlar hún að skreyta kakóbollann sinn.

22. desember 2015

Eigum við að hafa kósýkvöld í kvöld? Horfa á jólamynd og borða popp? Í dag lærum við að gera snjókarlapopp.

23. desember 2015

Ykkur er öllum boðið í 500 ára afmælið hans Hurðaskellis.

24. desember 2015

Það eru komin jól! Aðfangadagur er runninn upp og núna er allt tilbúið, er það ekki? En er þá ekki gaman að bæta einni aukagjöf undir tréð?

 

************************************************************************************

Jóladagatal Hurðaskellis og Skjóðu – 2014

1. desember 2014

Þetta er fyrstu þátturinn af jóladagatali Hurðaskellis og Skjóðu. Í dag ætla þau að föndra jóladagatal.

Hér eru leiðbeiningar fyrir jóladagatalið
Leiðbeiningar fyrir 1. des – Jóladagatal

2. desember 2014

Í dag mála Hurðaskellir og Skjóða spegilinn heima hjá sér með AB mjólk.

Hér má finna leiðbeiningar á rituðu máli um það hvernig maður málar spegil með AB mjólk.
leiðbeiningar fyrir 2. des – gervisnjór

3. desember 2014

Í jóladagatali dagsins föndra Hurðaskellir og Skjóða snjókúlu.

Hér er hægt að lesa leiðbeiningar um það hvernig maður býr til snjókúlu.
leiðbeiningar fyrir 3. des – snjókúla

4. desember 2014

Í dag föndra Hurðaskellir og Skjóða stiga handa músum.

Hér er hægt að sjá leiðbeiningar við gerð músastiga.
Leiðbeiningar fyrir 4. des – músastigar

5. desember 2014

Hurðaskellir og Skjóða kenna ykkur að föndra klifrandi jólasveina.

Hérna má finna sveinana sem þið þurfið að prenta út.
Jóladagatal 5. des – leiðbeiningar

6. desember 2014

Hurðaskellir og Skjóða föndra skemmtilega jólagjöf til Grýlu og Leppalúða.

7. desember 2014

Hurðaskellir og Skjóða búa til skemmtilega jólamynd með öllum jólasveinunum. En þessi mynd er samt ekki alveg hefðbundin því á henni eru allir í fjölskyldunni þinni.

8. desember 2014

Það styttist í jólin og Hurðaskellir og Skjóða föndra þrívíddarjólakort í dag.

9. desember 2014

Hollt og gott snakk í desember – ávaxtajólatré og grænmetisjólasveinn. Nammi namm.

10. desember 2014

Í dag ætlum við að pakka inn jólagjöfum. Hurðaskellir og Skjóða nota skemmtilega aðferð við innpökkunina en þau skreyta sjálf jólapappírinn sinn. Skoðaðu myndbandið og þá getur þú gert eins og þau.

11. desember 2014

Í dag setjum við skóinn út í glugga því Stekkjastaur kemur í nótt. En á meðan við bíðum eftir honum getur verið skemmtilegt að stytta sér stundir með því að föndra eitthvað skemmtilegt. Í dag föndra þau Hurðaskellir og Skjóða hjartapoka sem þau hengja á jólatréð.

12. desember 2014

Tökum okkur frí frá föndri í dag og skellum okkur á jólaball.

13. desember 2014

Í dag föndra Hurðaskellir og Skjóða samstæðuspil.

Þú getur búið til samstæðuspil líka og hér finnur þú leiðbeiningar fyrir það.
Leiðbeiningar fyrir 13. des – samstæðuspil

14. desember 2014

Í dag föndra Hurðaskellir og Skjóða brúðukarla, einn jólasvein og einn snjókarl.

15. desember 2014

Nú föndrum við jólakarla.

16. desember 2014

Í dag ætlum við að búa til púsl sem við síðan getum sett saman aftur og aftur og þannig stytt okkur biðina til jóla.

17. desember 2014

Vissuð þið að það er hægt að búa til jólaskraut úr plastpokum?

18. desember 2014

Nú byggjum við heilt piparkökuhús.

19. desember 2014

Í dag fara Hurðaskellir og Skjóða í heimsókn, komdu með!

20. desember 2014

Við ætlum að föndra risastórt jólatré.

21. desember 2014

Nú verður sko föndrað úr trölladeigi.

22. desember 2014

Nú perlum við eitthvað jólalegt og fallegt.

23. desember 2014

Hurðaskellir og 499 ára gamall í dag og í tilefni dagsins ætla þau systikinin að mála á kerti.

24. desember 2014

Það er kominn aðfangadagur og því ekki úr vegi að læra hina fullkomnu jólablöndu, malt og appelsín.