- Allir jólasveinarnir verða að vera með vel hirt og snyrt skegg. Skeggið skal þvo að lágmarki tvisvar sinnum daginn áður en haldið er til byggða og daglega á meðan þeir dvelja í mannabyggðum (sjampó og næring Skyrgámur). Eftir að heim í helli er komið er umhirða skeggsins ekki aðalatriði.
- Allir jólasveinar verða að halda rauða gallanum sínum hreinum og stroknum. Þeir skulu ekki láta sjá sig í mannabyggðum án hans og verða sérstaklega að muna að fara ekki út úr húsi á föðurlandinu einu fata (Gáttaþefur, þetta er til þín!)
- Allir jólasveinarnir verða að mæta tímanlega á jólaböll og aðrar skemmtanir þar sem búist er við þeim. Jólasveinn skal frekar vera fimm mínútum fyrr á ferðinni en fimm mínútum of seinn (Ketkrókur, ekkert hangs).
- Allir jólasveinarnir verða að þjálfa upphandleggsvöðvana svo þeir geti borið allar þær gjafir, mandarínur og sælgæti sem þeim er ætlað að koma til íslenskra barna. Mikilvægt er að gleyma ekki að taka með sér gjafirnar áður en haldið er af stað (Gluggagægir ég vil ekki þurfa að hlaupa á eftir þér með pokann þinn).
- Allir jólasveinarnir verða að geta sagt sögur af sér, bræðrum sínum, kettinum, mér (Grýlu) og öðru skemmtilegu sem tengist jólunum.
- Allir jólasveinarnir eiga að nálgast börn á þeirra forsendum. Athugið að yngri börn þarf að nálgast með meiri ró en þau sem eldri eru.
- Allir jólasveinarnir skulu leggja sig fram við að koma öllum sem þeir hitta í jólaskap.
- Allir jólasveinarnir þurfa að vera í góðu sambandi við tónlistarmenn sem þeir hitta á jólaböllum og vinna með, einnig alla kynna sem þeir hitta og verða að muna að stela ekki allri athyglinni frá þeim (Hurðaskellir þegar einhver er að halda ræðu þá situr þú kjurr og hlustar, er það skilið?!)
- Allir jólasveinarnir þurfa að rata í öll hús á Íslandi. Þeir þurfa líka að vera tilbúnir að heimsækja hvert hús oftar en einu sinni ef sérstaklega er óskað eftir því. Þegar þið farið í heimsókn til krakkanna segið þið þeim litla sögu, syngið fyrir þau og afhendið litla gjöf. (Ketkrókur þó þú farir í heimsókn áttu ekki að borða matinn frá fólkinu né sofa í rúminu þeirra, bara stoppa stutt).
- Allir jólasveinarnir verða að venjast því að vera einir á ferðinni og stjórna jólaböllum og skemmtunum án aðstoðar annarra. Hins vegar geta komið upp tilfelli þar sem þið farið fleiri saman og þá er alveg bannað að rífast eða vera ósammála. Jólasveinarnir eiga allir að vera vinir.
- Allir jólasveinarnir verða að æfa söngröddina sína svo hún berist langt og heyrist í hátt en þó fallega. Ekki er heldur verra ef þeir geta æft sig á gítar eða harmonikku og tekið hana með sér við sérstök tækifæri.
- Allir jólasveinarnir verða að kunna eftirfarandi jólalög:
- Adam átti syni sjö
- Bjart er yfir Betlehem
- Bráðum koma blessuð jólin
- Ég sá mömmu kyssa jólasvein
- Gekk ég yfir sjó og land
- Göngum við í kringum
- Heims um ból
- Í skóginum stóð kofi einn
- Jólasveinar einn og átta
- Jólasveinar ganga um gólf (með gildan staf Stúfur minn, ekki gylltan)
- Nú er Gunna á nýju skónum
- Nú skal segja, nú skal segja
Allir jólasveinarnir þurfa jafnframt að kunna þær hreyfingar og dansa sem fylgja lögunum (Stekkjastaur þú leggur þig bara fram eins og þú getur).